• Your Title Goes Here 50% 50%

Umsögn við frumvarpsdrög um lagareldi

Umsögn Sjávarútvegsþjónustunnar við frumvarpsdrög til laga um lagareldi. Umsögnin fjallar sérstaklega um III. kafla frumvarpsins – Umhverfisvernd og rannsóknir.

III. kafli. Umhverfisvernd og rannsóknir

Sjávarútvegsþjónustan leggur til eftirfarandi breytingar:

  • Áhættumat erfðablöndunar verði lagt niður sem stjórntæki.
  • Stjórnun hámarkslífmassa byggist á burðarþolsmati.
  • Heimilaður hámarkslífmassi til eldis á frjóum laxi verði ákveðinn af Alþingi hverju sinni.
  • Alþingi ákveði í hvaða fjörðum heimilt verði að stunda sjókvíaeldi á frjóum laxi.
  • Eldi í lokuðum sjókvíum verði eingöngu heimilt á hefðbundnum sjókvíaeldissvæðum.

 Umsagnir við frumvarpsdrögin

Margar greinar frumvarpsdraga til laga um lagareldi eru vel unnar og verður ekki fjallað sérstaklega um þær í umsögn Sjávarútvegsþjónustunnar.

Vegna umfangs og ítarleika athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins hefur verið ákveðið að fjalla um einn kafla í senn. Umsagnir verða því sendar í áföngum til alþingismanna, stjórnsýslunnar, hagsmunaaðila og annarra sem málið varðar.

Vegna umfangs verkefnisins liggur fyrir að ekki mun takast að skila öllum umsögnum innan núverandi skilafrests, sem rennur út 26. janúar. Umsagnir munu því aðeins að hluta til berast fyrir þann tíma. Á næstu vikum verða umsagnir um einstaka kafla frumvarpsdraga sendar jafnóðum og vinnu við þá lýkur, þar til endanlegt frumvarp til laga um lagareldi verður lagt fram á Alþingi og opnað verður aftur fyrir umsagnir.

Umsagnir við endanlegt frumvarp

Sjávarútvegsþjónustan mun jafnframt senda umsagnir við endanlegt frumvarp til laga um lagareldi. Umsagnir við frumvarpsdrögin verða þá endurbættar, mögulega leiðrétt og eftir atvikum uppfærðar, meðal annars með hliðsjón af athugasemdum og ábendingum annarra umsagnaraðila. Markmiðið er að gefa heildstæðari mynd af málinu og styrkja rökstuðning.

Skilafrestir til umsagna við frumvörp eru almennt stuttir og gera má ráð fyrir að ekki náist í öllum tilvikum að skila umsögnum innan tilgreindra tímamarka. Að þeim tíma liðnum verða einstakir kaflar þó áfram sendir um leið og vinnu við þá lýkur, þar til frumvarp til laga um lagareldi hefur verið afgreitt af Alþingi Íslendinga.