Markaðssetning
Upprunamerki fyrir íslenskt sjávarfang. Tilgangur merkisins er að tryggja kaupendum og neytendum upplýsingar um að íslenskar sjávarafurðir eigi uppruna sinn í ábyrgum fiskveiðum Íslendinga. Merkið má nota á íslenskar sjávarafurðir sem unnar eru úr afla í íslenskri lögsögu, úr stofnum sem ekki teljast deilistofnar, hvort sem er innan aflamarkskerfis eða utan aflamarks. Það má nota á afla íslenskra fiskiskipa úr deilistofnum sem eru að hluta til innan íslenskrar lögsögu og lúta viðurkenndri heildarstjórnun. Merkið fylgir þannig afurðunum á markað um allan heim og bera kaupendur sjávarafurða ábyrgð á því að eftir reglum sé farið með traustu rekjanleikakerfi.
Íslandsstofa sér um kynningarstarf á mörkuðum fyrir íslenskar sjávarafurðir undir merkjum Iceland Responsible Fisheries. Fagráð sjávarútvegs hjá Íslandsstofu starfar sem bakhjarl verkefnisins í mótun áherslna í markaðsstarfi. Í því eru tíu aðilar úr útgerð, vinnslu og markaðsfyrirtækjum í sjávarútvegi, auk fulltrúa úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Markmiðið er að skapa verðmæta ímynd með því að tengja saman íslenskan uppruna afurðanna og ábyrgar fiskveiðar.