Frumvarp um lagareldi: Til fjárhagslegs ávinnings

 Höfundur sendi inn umsögn við frumvarp til laga um fiskeldi á árinu 2019 og því miður hefur margt af því sem þar var varað við raungerst. Aftur er varað við og nú vegna frumvarps um lagareldi  sem er til meðferðar á Alþingi Íslendinga.  Hér á eftir verður eingöngu fjallað um þann þátt frumvarpsins sem snýr að mögulegum fjárhagslegum ávinningi fámenns hóps fjárfesta.  En fyrst skulum við skoða ferli málsins.

 Pdf skjal af greininni

Undirbúa jarðveginn

Fyrirtæki fyrrverandi stjórnarformanna Arnarlax og Ice Fish Farm sóttu markvisst um eldissvæði í flestum fjörðum þar sem ekki var bannað að vera með laxeldi í sjókvíum.   Útbúin var  viðskiptaáætlun þar sem eldissvæðin og framleiðsluheimildir voru verðmætin og erlendir aðilar fengnir að borðinu með fjármagn. Stjórnarformennirnir létu skipa sig í opinberan starfshóp um stefnumótun í fiskeldi.  Fyrirtæki stjórnarformanna, sem voru búin að koma leyfisveitingarkerfinu í uppnám, urðu helstu ráðgjafar stjórnvalda. Mikilvægt var að hafa ítök innan ráðuneytis og þar voru starfsmenn sem höfðu sterka tengingu við þáverandi stjórnarformann Arnarlax. Gefin var út stefnumótunarskýrsla á árinu 2017 með hagstæðum tillögum fyrir stjórnarformennina, með væntingum um fjárhagslegan ávinning þar sem eldisleyfin voru verðmætin.

 

Vöntun á faglegu rýni

Ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skrifaði tillögur stefnumótunarskýrslunnar inn í fiskeldisfrumvarpið og augljóslega var verið að huga að sérhagsmunum þeirra sem sömdu leikreglurnar en stjórnarformennirnir höfðu verið leiðandi aðilar í  stefnumótunarvinnunni.  Lög um fiskeldi  voru samþykkt frá Alþingi Íslendinga árið 2019 og á árunum 2020 og 2021 fóru laxeldisfyrirtækin í meirihlutaeigu erlenda aðila á erlendan hlutabréfamarkað og voru eldisleyfin metin á u.þ.b. 100 milljarða íslenskra króna.  Hér er um að ræða laxeldisfyrirtækin Arnarlax, Arctic Fish og Ice Fish Farm. 

 

Verðmætin aukin

Áhættumat erfðablöndunar var ætlað að vernda villta íslenska laxastofna en er í raun úthlutunarkerfi og þegar það var fyrst gefið út á árinu  2017 voru heimildir til eldis á frjóum laxi mjög takmarkaðar. Til að laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila gætu haldið svæðum var heimilað að hægt væri að sækja um eldi á ófrjóum laxi. Eldi á ófrjóum laxi var þá óraunhæfur valkostur, er það ennþá og fyrirséð að þannig verði á næstu árum. Heimildir í áhættumatinu voru auknar á árinu 2020 og í framhaldinu var farið að breyta leyfum úr ófrjóum laxi yfir í frjóan lax.  Jafnframt var gerð sú breyting á áhættumatinu að heimildum var breytt úr framleiddu magni yfir í hámarks leyfilegan lífmassa og jukust þá heimildir u.þ.b. 30% og þar með verðmæti eldisleyfanna. 

 

Færa til eignar

Í nýju frumvarpi til laga um lagareldi er verið að stuðla að því að auðlindin íslenskir firðir verði nær því að teljast til eignar handhafa eldisleyfa.  Það eru einkum þrjár breytingar sem stuðla að því; ótímabundin rekstrarleyfi, heimild til verðsetningar og heimild til leigu laxahluta. Laxahlutir er hlutdeild rekstrarleyfishafa af heildarlaxamagni sem heimilt er að ala hverju sinni.   Í framhaldinu munu málin þróast þannig að um varanlega eign verður að ræða eða sagt með öðrum orðum að arðurinn af auðlindinni íslenskir firðir verður einkavæddur að mestu í þágu erlendra fjárfesta.  Ótímabundin rekstrarleyfi hafa fengið mikla athygli en af einhverjum ástæðum hafa tillögur um heimildir til veðsetningar og leigu laxahluta fengið takmarkað umfjöllun.

 

Verðmætin aukast enn frekar

Í frumvarpi til laga um lagareldi er lagt til heimild að flytja leyfilega lífmassa á milli eldissvæða en við það eykst framleiðslugeta laxeldisfyrirtækja og þar með verðmæti leyfa.    Sama gildir um heimild til leigu á heimildum ( laxahlutum) sem mun auka framleiðslu á landsvísu og jafnframt auka verðmæti eldisleyfa. Hér er mögulega um að ræða tugmilljarða fjárhagslegan ávinning einkum til Ice Fish Farm, Arnarlax og Arctic Fish.  Bent hefur verið á óheppileg tengsli úr ráðuneytinu við þá sem fara með hagsmunagæslu laxeldisfyrirtækjanna sem verður að teljast alvarlegt.

 

Verður í eigu erlendra aðila

Það eru ýmis ákvæði í frumvarpinu s.s. um smitvarnarsvæði, útboð smitvarnarsvæða ásamt bráðabrigðaákvæðum sem  munu stuðla að því að allt laxeldi í sjókvíum hér á landi verður í eigu Arnarlax, Arctic Fish og Ice Fish Farm.  Varðandi útboð á laxahlutum eiga íslensku félögin litla sem enga möguleika að keppa við laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila sem hafa byggt upp sterka eiginfjárstöðu með því að gera eldisleyfin að verðmætum.   Mögulega getur sú staða komið upp að  íslensku félögin, sem verða ekki yfirtekin og vilja stækka þurfi að leigja laxahluti af laxeldisfyrirtækjum sem eru að mestu í eigu erlendra fjárfesta/sjóða.