Stefnumótunarhópurinn með tvo fulltrúa frá Landssambandi fiskeldistöðva (LF), einn frá Landssambandi veiðifélaga (LV) og þrjá frá opinberum stofnunum var stofnaður þann 1. desember 2016 af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Starfshópurinn hélt 24 fundi og skilaði af sér skýrslu 21. ágúst 2017. Hér er er farið yfir tillögur stefnumótunarhópsins, hvernig þær fóru í gegnum stjórnsýsluna og mat lagt á stöðuna eins og hún er nú. Í vinnu stefnumótahópsins voru fulltrúar LF, stjórnarformenn Arnarlax og Fiskeldis Austfjarða sem réðu för. Fulltrúi LV var sá eini sem reyndi að veita aðhald og fulltrúar stofnana í stefnumótunarhópnum voru ekki að vinna sína heimavinnu. Laxeldisfyrirtæki stjórnarformanna voru búin að koma leyfisveitingarkerfinu í uppnám með um 70% af 140.000 tonnum sem þá voru áform um á árinu 2016 og með setu í stefnumótunarhópnum voru þeir orðnir helstu ráðgjafar stjórnvalda. Það var ekki unnið úr flækjustiginu í núverandi leyfisveitingarkerfi og komið með tillögu að nýju leyfisveitingarkerfi sem hagnaðist laxeldisfyrirtækjum stjórnarformannanna. Í vinnu stefnumótunarhópsins var umhverfismálum í of miklu mæli ýtt til hliðar og tillögurnar fólust í að tryggja fjárhagslegan ávinning laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila m.a. með:
- Hækkun í hafi: Engar takmarkanir voru settar hvorki á erlent eignarhald né á stærð laxeldisfyrirtækja. Þannig var hægt að fara með þau á erlendan hlutabréfamarkað og eru verðmæti eldisleyfanna nú um 100 milljarða ISK.
- Blokkera: Ákvæði sett í lög um ófrjóa laxa m.a. til þess að laxeldisfyrirtæki stjórnarformanna gætu haldið sínum svæðum a.m.k. í fimm ár án þess að nýta þau eða greiða auðlindagjald. Með von um að síðar meir verði heimildir til eldis á frjóum laxi auknar eins og reyndin hefur síðar orðið.
- Hagstætt úthlutunarkerfi: Í nýju leyfisveitingarkerfi voru hagstæðar reglur fyrir laxeldisfyrirtæki stjórnarformannanna til að auðvelda þeim að ná nýjum svæðum þegar þau færu í útboð. Í flestum tilvikum er aðeins um einn aðila sem getur boði í heimildir og til hvers er þá verið að fara í útboð nema sem sýndargjörning.
Stefnumótunin snérist í allt of miklu mæli um að tryggja íslenskum frumkvöðlum og erlendum fjárfestum sem mestum fjárhagslegum ávinningi. Tillögur stefnumótunarhópsins voru að auðlindagjöld væru lág og kæmu ekki strax til greiðslu, en í meðferð málsins voru auðlindagjöld aukin umtalsvert. Kostnaði var einnig haldið í algjöru lágmarki og gert ráð fyrir að ekki þyrfti að greiða fyrir umhverfistjón eða taka afleiðinga af vinnubrögðum sem er ábótavant eins og norsk móðurfélög íslensku félagana þurfa að gera í sínu heimalandi. Við kynningu á stefnumótunarskýrslunni flögguðu stjórnvöld því að ,,vernd lífríkis séu höfð að leiðarljósi“ en staðan var í raun eins og bent var á í umsögn við fiskeldisfrumvarpið á árinu 2019 ,,Íslendingar munu standa að baki nágrannalöndum í umhverfismálum laxeldis er varðar erfðablöndun, laxalús, heilbrigðismál og lífrænt álag“.