Áhættumat erfðablöndunar byggir á líkani þar sem erfðablöndun hefur í raun verið  innbyggð. Það hefur verið notað fyrst og fremst til að úthluta framleiðsluheimildum til laxeldisfyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila til sjókvíaeldi á frjóum norskum eldislaxi í íslenskum fjörðum.

Ófagleg og jafnvel óheiðarleg vinnubrögð á undanförnum árum hafa sett atvinnugreinina í neikvætt ljós, og því miður hefur gagnrýni sem á hana hefur beinst oft átt við rök að styðjast.

Fréttatilkynningu svarað

Höfundur hefur gagnrýnt áhættumat erfðablöndunar opinberlega, og það sem hefur vakið sérstaka athygli er að Hafrannsóknastofnun taldi tilefni til að gefa út sérstaka fréttatilkynningu um málið hinn 9. mars 2023 á vef stofnunarinnar, undir heitinu „Áhættumat erfðablöndunar útskýrt“.

Skýrslan í viðhengi er m.a. ætluð sem svar við þessari fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar, en áður hafði verið birt andsvar höfundar í nokkrum greinum í Bændablaðinu.

Aðeins drög að nýju áhættumati

Beðið hefur verið með frekari viðbrögð frá árinu 2023, þegar Hafrannsóknastofnun átti að gefa út nýtt áhættumat til að uppfylla lög um fiskeldi, en útgáfan hefur nú tafist í tvö ár.  Drög að áhættumati 2025 eru nú hjá samráðnefnd um fiskeldi sem hefur það hlutverk að leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggist á, en vinna nefndarinnar hefur dregist fram yfir lögbundin tímamörk.

Jákvæð þróun

Með útgáfu á drögum áhættumats 2025 hefur átt sér stað jákvæð þróun. Nú er í fyrsta sinn gert ráð fyrir að ófullnægjandi mótvægisaðgerðir geti leitt til skerðingar á framleiðsluheimildum og þar með dregið úr umhverfisáhrifum laxeldis.

Ef vel tekst til má með þessum breytingum draga verulega úr — og í sumum tilvikum koma alfarið í veg fyrir — erfðablöndun við villta íslenska laxastofna. Hér hefur verið stigið stórt og mikilvægt skref fram á við.

Löng skýrsla með samantektum

Í heild sinni, með viðaukum, er skýrslan rúmlega 200 blaðsíður.

Í fyrsta kafla eru raktar meginniðurstöður skýrslunnar, en í öðrum kafla er að finna ítarlegri samantekt á helstu niðurstöðum og forsendum þeirra.

 Þeim sem vilja kynna sér nánar röksemdirnar að baki niðurstöðunum er hvatt til þess að lesa skýrsluna í heild sinni.