Athugasemdir við fiskeldisfrumvarpið
Sendar hafa verið inn athugasemdir við fiskeldisfrumvarpið sem nú er til meðferðar á Alþingi og gert margar alvarlegar athugasemdir. Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt munu Íslendingar standa að baki nágrannalöndum í umhverfismálum laxeldis er varðar erfðablöndun, laxalús, heilbrigðismál og lífrænt álag. Það er því full ástæða til að staldra við, láta fara fram faglega vinnu með aðstoð og ráðgjöf erlendra sérfræðinga frá löndum sem standa fremst í umhverfismálum laxeldis.
Athugasemdir við vinnubrögð stefnumótunarhóps
Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi sem fiskeldisfrumvarpið byggir á. Vinnubrögðin samrýmast ekki á nokkurn hátt góðum stjórnsýsluháttum og kunni í ákveðnum tilvikum að fara gegn ákvæðum stjórnsýslulaga. Í þessu sambandi hafa verið teknar saman athugasemdir um vinnubrögð starfshópsins og niðurstöður þeirrar skýrslu sem starfshópurinn skilaði af sér. Vegna þeirra alvarlegu annmarka sem eru á þeim gögnum sem fyrirliggjandi frumvarp byggir á, hefur verið óskað eftir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis taki málið upp, rannsaki og eftir atvikum að nefndin skipi óháða rannsóknaraðila til að yfirfara þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð. Svo virðist sem ákveðnir aðilar hafa farið offari í að helga sér svæði til sjókvíaeldis á laxfiskum, skipað sig í stefnumótunarhópinn og þar unnið að sínum sérhagsmunum m.a. til að ná fjárhagslegum ávinningi.
Vegna þeirra alvarlegu annmarka við vinnubrögðum starfshópsins hefur þess verið farið á leit við embætti Umboðsmanns Alþings að það skoði hvort ekki sé rétt að embættið taki málið til meðferðar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997 um Umboðsmann Alþingis.
Athugasemdir við Áhættumat erfðablöndunar
Jafnframt hafa verið gerðar athugasemdir við svokallað „Áhættumat erfðablöndunar“, sem starfshópurinn byggði niðurstöður sínar að hluta til á. Áhættumatið hefur fengið mjög takmarkaða faglega gagnrýni í fjölmiðlum, en ítarlega er farið í greinagerðinni yfir vankanta þess en í því er m.a. verið að lögfesta heimild til erfðablöndunar á villtum íslenskum laxastofnum.